Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á varnarmálalögum nr. 34/2008 (netöryggi)
SFF rituðu umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á varnarmálalögum nr. 34/2008 (netöryggi) þar sem ætlunin er að flytja ábyrgð á starfsemi netöryggissveitarinnar CERT- IS frá Fjarskiptastofu til utanríkisráðuneytisins. Með frumvarpinu er ætlunin að styrkja bæði borgaralegt og varnarmálatengt netöryggi og netvarnir sem er mikilvægur hlekkur í öryggis- og varnarmálum Íslands.
Netöryggi er mikilvægt grundvallaratriði í nútímasamfélagi sem nauðsynlegt er að taka föstum tökum m.a. þegar kemur að vörnum fyrir kerfislega mikilvæga innviði eins og fjármálakerfið. Starf netöryggissveitarinnar CERT-IS er afar mikilvægt á okkar tímum þegar fjölþátta ógnir á borð við netárásir og netsvik steðja að samfélaginu og stofnunum þess. Netöryggissveitin CERT-IS hefur fram að þessu stutt við netvarnir kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja og er brýnt að svo verði áfram. SFF meta það svo að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu séu til þess fallnar að styrkja netöryggissveitina CERT-IS og gefa henni aukið vægi. SFF styðja því markmið og tilgang frumvarpsins.